Pelgraz

Helstu upplýsingar

 • Heiti vöru:
 • Pelgraz
 • Lyf við lungum:
 • Mannfólk
 • Lyfjaform:
 • Allópatísk lyf

Skjöl

Staðsetning

 • Fáanlegt í:
 • Pelgraz
  Evrópusambandið
 • Tungumál:
 • íslenska

Meðferðarupplýsingar

 • Meðferðarhópur:
 • Ónæmisörvandi,
 • Lækningarsvæði:
 • Daufkyrningafæð
 • Ábendingar:
 • Lækkun á lengd mæði í tengslum og tíðni hita og mæði í tengslum í sjúklinga með frumudrepandi lyfjameðferð fyrir illkynja (með undantekning langvarandi merg hvítblæði og myelodysplastic heilkennum).
 • Vörulýsing:
 • Revision: 2

Staða

 • Heimild:
 • EMA - European Medicines Agency
 • Leyfisstaða:
 • Leyfilegt
 • Leyfisnúmer:
 • EMEA/H/C/003961
 • Leyfisdagur:
 • 20-09-2018
 • EMEA númer:
 • EMEA/H/C/003961
 • Síðasta uppfærsla:
 • 24-05-2019

Upplýsingar um fylgiseðil sjúklinga: samsetning, vísbendingar, aukaverkanir, skammtar, milliverkanir, aukaverkanir, meðgöngu, brjóstagjöf

B. FYLGISEÐILL

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Pelgraz 6 mg stungulyf, lausn í áfylltri sprautu

pegfilgrastim

Þetta lyf er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og

örugglega til skila. Allir geta hjálpað til við þetta með því að tilkynna aukaverkanir sem koma fram.

Aftast í kafla 4 eru upplýsingar um hvernig tilkynna á aukaverkanir.

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar

upplýsingar.

Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum.

Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið

þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir

einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

Upplýsingar um Pelgraz og við hverju það er notað

Áður en byrjað er að nota Pelgraz

Hvernig nota á Pelgraz

Hugsanlegar aukaverkanir

Hvernig geyma á Pelgraz

Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.

Upplýsingar um Pelgraz og við hverju það er notað

Pelgraz inniheldur virka efnið pegfilgrastim. Pegfilgrastim er prótein sem framleitt er með líftækni í

bakteríu sem nefnist E. coli. Það tilheyrir flokki próteina sem nefnast cytokin og er mjög líkt

náttúrulegu próteini (kyrningavaxtarþætti) sem myndast í líkamanum.

Pelgraz er notað til að stytta þann tíma sem daufkyrningafæð (fá hvít blóðkorn) varir og fækka

tilvikum daufkyrningafæðar með hita (fá hvít blóðkorn og hækkaður líkamshiti) en frumuskemmandi

krabbameinslyf (lyf sem eyða frumum í hröðum vexti) geta valdið slíku. Hvítu blóðkornin eru

mikilvæg, því þau verja líkamann gegn sýkingu. Þessi blóðkorn eru mjög næm fyrir verkun

krabbameinslyfja sem geta leitt til fækkunar blóðkornanna í líkamanum. Fækki hvítum blóðkornum

mjög mikið kann að vera að of fá hvít blóðkorn verði eftir til að verja líkamann gegn bakteríum og þar

með getur hætta á sýkingum aukist.

Læknirinn hefur ákveðið notkun Pelgraz til að hvetja beinmerginn (sá hluti beina þar sem blóðkorn

myndast) til að mynda fleiri hvít blóðkorn sem verja líkamann gegn sýkingu.

2.

Áður en byrjað er að nota Pelgraz

Ekki má nota Pelgraz

ef um er að ræða ofnæmi fyrir pegfilgrastimi, filgrastimi eða einhverju öðru innihaldsefni

lyfsins (talin upp í kafla 6).

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum áður en Pelgraz er notað ef þú:

færð ofnæmisviðbrögð, þar með talið máttleysi, lækkaður blóðþrýstingur, öndunarerfiðleikar,

þroti í andliti (bráðaofnæmi), roði og andlitsroði, húðútbrot og upphleypt húðsvæði með kláða.

ert með ofnæmi fyrir latexi. Nálarhettan á áfylltu sprautunni inniheldur latexafleiðu og getur

valdið alvarlegum ofnæmisviðbrögðum.

færð hósta, hita og öndunarörðugleika. Þetta geta verið einkenni bráðs andnauðarheilkennis

(Acute Respiratory Distress Syndrome (ARDS)).

ert með eina eða fleiri eftirfarandi aukaverkana:

bjúgur eða þroti, stundum með minni tíðni þvagláta, öndunarörðugleikar, þaninn kviður

og seddutilfinning og almenn þreytutilfinning.

Þetta gætu verið einkenni ástands sem nefnist háræðalekaheilkenni, sem veldur því að blóð lekur

úr litlum æðum út í líkamann. Sjá kafla 4.

færð verki í vinstri og efri hluta kviðar eða verki efst í öxl. Þetta geta verið einkenni um

vandamál í milta (miltisstækkun).

hefur nýlega fengið alvarlega sýkingu í lungun (lungnabólgu), vökva í lungun (lungnabjúgur),

bólgu í lungun (millivefslungnasjúkdómur) eða óeðlilega röntgenmynd af brjóstkassa (íferð í

lungum).

veist um einhverjar breytingar á fjölda blóðfrumna (t.d. fjölgun hvítra blóðkorna eða blóðleysi)

eða fækkun blóðflagna, sem dregur úr storknunargetu blóðsins (blóðflagnafæð). Læknirinn gæti

viljað fylgjast nánar með þér.

ert með sigðkornablóðleysi. Læknirinn gæti viljað fylgjast nánar með þér.

færð skyndileg einkenni ofnæmis svo sem útbrot, kláða eða ofsakláða í húð, bjúg í andliti,

vörum, tungu eða öðrum hlutum líkamans, mæði, hvæsandi öndun eða öndunarerfiðleika gætu

þetta verið einkenni alvarlegra ofnæmisviðbragða.

Læknirinn mun reglulega rannsaka blóð og þvag hjá þér þar sem Pelgraz getur skaðað örlitlar síur í

nýrunum (nýrnahnoðrabólga).

Þú skalt ræða við lækninn um hættuna á því að þú fáir krabbamein í blóðið. Ef þú færð eða ert

líkleg(ur) til að fá krabbamein í blóðið, skaltu ekki nota Pelgraz nema læknirinn gefi fyrirmæli um

það.

Í mjög sjaldgæfum tilvikum hefur verið tilkynnt um bólgu í ósæð (stóru æðinni sem flytur blóð frá

hjartanu út í líkamann) hjá krabbameinssjúklingum og heilbrigðum gjöfum. Einkennin geta m.a. verið

hiti, kviðverkir, vanlíðan, bakverkir og hækkaðir bólguvísar (t.d. CRP og fjöldi hvítra blóðkorna).

Láttu lækninn vita ef vart verður við þessi einkenni.

Engin svörun við pegfilgrastimi

Ef engin svörun við pegfilgrastimi kemur fram eða ef illa gengur að viðhalda svörun með

pegfilgrastim meðferð mun læknirinn leita ástæðunnar þar á meðal hvort myndast hafi mótefni sem

vega upp á móti virkni pegfilgrastims.

Börn og unglingar

Ekki hefur enn verið sýnt fram á öryggi og verkun Pelgraz hjá börnum. Leitið ráða hjá lækninum eða

lyfjafræðingi áður en lyf eru notuð.

Notkun annarra lyfja samhliða Pelgraz

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu

að verða notuð.

Meðganga og brjóstagjöf

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyf eru notuð. Notkun Pelgraz hefur ekki verið

rannsökuð hjá þunguðum konum. Mikilvægt er að segja lækninum frá því ef þú:

ert þunguð,

heldur að þú sért þunguð, eða

hyggst verða þunguð.

Ef þú verður barnshafandi meðan á meðferð með Pelgraz stendur skaltu segja lækninum frá því.

Hætta verður brjóstagjöf þann tíma sem Pelgraz er notað nema læknirinn ákveði annað.

Akstur og notkun véla

Pelgraz hefur engin eða óveruleg áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

Pelgraz inniheldur sorbitól (E420) og natríumasetat

Lyfið inniheldur 50 g af sorbitóli í hverri rúmmálseiningu sem jafngildir 30 mg í 6 mg skammti.

Pelgraz inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverri 6 mg skammtaeiningu, þ.e.a.s. er sem

næst natríumlaust.

3.

Hvernig nota á Pelgraz

Pelgraz er ætlað fullorðnum sem eru 18 ára eða eldri.

Notið Pelgraz alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að nota lyfið

leitaðu þá upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi. Venjulegur skammtur er ein inndæling 6 mg

undir húð með áfylltri sprautu og gefa á inndælinguna a.m.k 24 klst. eftir síðasta skammt

krabbameinslyfs, í lok hvers meðferðarkafla.

Ekki hrista Pelgraz kröftuglega þar sem það getur haft áhrif á virkni þess.

Ef þú annast sjálf/-ur inndælingu Pelgraz

Læknirinn gæti talið heppilegast að þú annist sjálf/-ur inndælingu Pelgraz. Læknirinn eða

hjúkrunarfræðingur mun sýna þér hvernig á að sprauta sig. Ekki reyna að sprauta þig nema þú hafir

fengið sérstaka þjálfun til þess hjá lækninum eða hjúkrunarfræðingi.

Leiðbeiningar um hvernig standa á að inndælingu koma fram hér fyrir neðan en rétt meðferð

sjúkdómsins kallar á nána og stöðuga samvinnu við lækninn.

Ef þú ert ekki viss hvernig gefa eigi inndælinguna sjálf/-ur eða ef spurningar vakna skaltu leita hjálpar

hjá lækninum eða hjúkrunarfræðingi.

Hvernig sprauta ég Pelgraz sjálf/-ur?

Þú þarft að sprauta þig í vefinn rétt undir húðinni. Þetta kallast inndæling undir húð. Þú þarft að fá

inndælinguna á sama tíma á hverjum degi.

Nauðsynlegur búnaður

Til þess að gefa sér inndælingu undir húð þarf að hafa við höndina:

áfyllta sprautu af Pelgraz;

sprittþurrku.

Hvað þarf ég að gera áður en ég gef mér inndælingu undir húð með Pelgraz?

Taktu áfylltu sprautuna úr kæli.

Ekki fjarlægja nálarhlífina af nálinni fyrr en rétt áður en þú ert tilbúin/n að sprauta.

Athugaðu fyrningardagsetninguna á áletrun áfylltu sprautunnar (EXP). Ekki nota hana ef

dagsetningin er komin fram yfir síðasta dag þess mánaðar sem þar kemur fram eða ef hún hefur

verið geymd utan kælis lengur en 72 klst. eða hefur fyrnst á annan hátt.

Skoðaðu útlit Pelgraz. Það á að vera tær og litlaus vökvi. Ef agnir eru til staðar má ekki nota

það.

Inndælingin verður þægilegri ef þú lætur sprautuna standa í 30 mínútur til að ná stofuhita eða

heldur sprautunni varlega í höndunum í nokkrar mínútur. Ekki hita Pelgraz upp á neinn annan

hátt (t.d skal ekki hita það upp í örbylgjuofni eða heitu vatni).

Þvoðu þér vandlega um hendurnar.

Finndu þægilegan, bjartan stað og settu allt sem þú þarft þar sem þú nærð í það (áfylltu

sprautuna og sprittþurrku).

Hvernig undirbý ég inndælinguna með Pelgraz?

Áður en þú sprautar Pelgraz verður þú að gera eftirfarandi:

Haltu sprautunni og taktu hlífina varlega af nálinni án þess að snúa henni. Togaðu hana beint af

eins og sýnt er á myndum 1 og 2. Ekki snerta nálina eða þrýsta á bulluna.

1

2

Þú sérð hugsanlega litla loftbólu í áfylltu sprautunni. Þú þarft ekki að fjarlægja loftbóluna fyrir

inndælinguna. Það er skaðlaust að sprauta lausninni með loftbólunni.

Nú getur þú notað áfylltu sprautuna.

Hvar á ég að gefa inndælinguna?

Hentugustu staðirnir til þess að sprauta sig sjálf/-ur eru:

Efsti hluti læranna; og

Kviðurinn, nema svæðið kringum naflann (sjá mynd 3).

3

Ef einhver annar sprautar þig má einnig gera það í aftanverðan handlegg (sjá mynd 4)

4

Betra er að skipta um stungustað í hvert skipti til þess að koma í veg fyrir hættu á eymslum á einum

stað.

Hvernig gef ég mér inndælinguna?

Sótthreinsaðu svæðið með sprittþurrku og klíptu í húðina með þumli og vísifingri án þess að

þrýsta of fast (sjá mynd 5).

5

Áfyllt sprauta með nálarvörn

Settu nálina alla leið inn í húðina eins og hjúkrunarfræðingurinn eða læknirinn hefur sýnt þér

(sjá mynd 6).

Togaðu örlítið í bulluna til þess að ganga úr skugga um að æð hafi ekki rofnað. Ef blóð sést í

sprautunni skaltu taka nálina úr og setja hana inn á öðrum stað.

Klíptu áfram í húðina og þrýstu varlega á bulluna um leið og þú heldur við fingragripið, þar til

búið er að gefa allan skammtinn og ekki er hægt að þrýsta bullunni lengra. Ekki sleppa

þrýstingnum af bullunni!

Eftir að vökvanum hefur verið sprautað skal halda sprautunni áfram í sömu stöðu og viðhalda

þrýstingnum á bullunni, fjarlægja sprautuna og sleppa síðan húðinni. Verndarhlífin mun

sjálfkrafa hylja nálina og smellur heyrist til þess að staðfesta virkjun hlífarinnar (sjá mynd 7).

Nálarvörnin virkjast ekki nema heill skammtur hafi verið gefinn.

6

7

Mundu

Ef einhver vandamál koma upp skaltu leita til til læknisins eða hjúkrunarfræðings til þess að fá aðstoð

og ráðleggingar.

Förgun notaðra sprauta

Fargaðu sprautunum samkvæmt leiðbeiningum læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðings.

Ef stærri skammtur Pelgraz en mælt er fyrir um er notaður

Ef notað er meira af Pelgraz en til er ætlast skal hafa samband við lækninn, lyfjafræðing eða

hjúkrunarfræðing.

Ef gleymist að nota Pelgraz

Ef þú sérð sjálf/sjálfur um inndælinguna og skammtur af Pelgraz gleymist skal hafa samband við

lækninn og ræða við hann um það hvenær gefa á næsta skammt með inndælingu.

Ef hætt er að nota Pelgraz

Læknirinn mun segja þér hvenær hætta skuli að nota Pelgraz. Það er mjög eðlilegt að fá margar lotur

af meðferð með Pelgraz.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.

Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur Pelgraz valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Látið lækninn tafarlaust vita ef ein eða fleiri eftirfarandi aukaverkana kemur fram:

bjúgur eða þroti, stundum með minni tíðni þvagláta, öndunarörðugleikar, þaninn kviður og

seddutilfinning og almenn þreytutilfinning. Þessi einkenni koma yfirleitt hratt fram.

Þetta gætu verið einkenni sjaldgæfs (getur komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

ástands sem nefnist háræðalekaheilkenni, sem veldur því að blóð lekur úr litlum æðum út í líkamann

og krefst tafarlausar læknishjálpar.

Mjög algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum):

beinverkir. Læknirinn mun ráðleggja hvað nota skuli til að slá á verkina.

ógleði og höfuðverkur.

Algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum):

sársauki á stungustað.

almennir verkir og sársauki í liðum og vöðvum.

verkir fyrir brjósti sem eru ekki af völdum hjartasjúkdóms eða hjartaáfalls.

breytingar á blóðgildum geta komið fram en þær munu greinast við reglulegar blóðrannsóknir.

Hvítum blóðkornum getur fjölgað í skamman tíma. Blóðflögum getur fækkað og það getur leitt

til þess að fram komi mar.

Sjaldgæfar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum):

ofnæmislík viðbrögð, þar með talið roði og andlitsroði, húðútbrot og upphleypt svæði með

kláða.

alvarleg ofnæmisviðbrögð þar með talið bráðaofnæmi (máttleysi, lækkaður blóðþrýstingur,

öndunarerfiðleikar, þroti í andliti).

miltisstækkun.

miltisrof. Sum tilvik miltisrofs voru banvæn. Mikilvægt er að segja lækninum strax frá því ef

fram kemur verkur í efri og vinstri hluta kviðar eða í vinstri öxl, því vera má að slíkt tengist

vandamálum í milta.

öndunarerfiðleikar. Segið lækninum frá því ef fram kemur hósti, hiti og öndunarerfiðleikar.

Sweets heilkenni (plómulitaðar, upphleyptar og sársaukafullar meinsemdir á útlimum og

stundum í andliti og á hálsi, með hita) hefur komið en aðrir þættir geta átt þar hlut að máli.

æðabólga í húð.

skemmdir á örlitlum síum í nýrunum (nýrnahnoðrabólga).

roði á stungustað.

óeðlilegar niðurstöður blóðrannsókna (laktat dehýdrógenasi, þvagsýra og alkalínfosfatasi).

óeðlilegar niðurstöður blóðrannsókna í tengslum við lifur (alanínamínótransferasi og

aspartatamínótransferasi).

blóðhósti (blóðspýja).

Mjög sjaldgæfar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 1.000 einstaklingum):

bólga í ósæð (stóru æðinni sem flytur blóð frá hjartanu út í líkamann), sjá kafla 2.

blæðing frá lunga (lungnablæðing)

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um

aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint

samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna

aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.

Hvernig geyma á Pelgraz

Geymið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og merkimiða á eftir EXP.

Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið í kæli (2°C - 8°C).

Pelgraz má geyma við stofuhita (mest 25°C ± 2°C) að hámarki í 72 klst. í eitt skipti. Ef Pelgraz er

geymt við stofuhita lengur en 72 klst. skal fleygja því. Ef spurningar vakna varðandi geymslu skal

spyrja lækninn, hjúkrunarfræðing eða lyfjafræðing.

Má ekki frjósa. Ef Pelgraz frýs fyrir slysni í innan við 24 klst. í eitt skipti hefur það ekki skaðleg áhrif

á stöðugleika Pelgraz.

Geymið áfylltu sprautuna í öskjunni til varnar gegn ljósi.

Ekki má nota lyfið ef lausnin er skýjuð eða í henni eru agnir.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í

apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda

umhverfið.

6.

Pakkningar og aðrar upplýsingar

Pelgraz inniheldur

Virka efnið er pegfilgrastim. Hver áfyllt sprauta inniheldur pegfilgrastim 6 mg í 0,6 ml af lausn.

Önnur innihaldsefni eru natríumasetat, sorbitól (E420), pólýsorbat 20 og vatn fyrir stungulyf (sjá

kafla 2).

Lýsing á útliti Pelgraz og pakkningastærðir

Pelgraz er tært, litlaust stungulyf, lausn í áfylltri sprautu með inndælingarnál. Hver áfyllt sprauta

inniheldur 0,6 ml af lausn.

Pelgraz fæst í pakkningum sem inniheldur 1 áfyllta sprautu með áfastri nálarvörn í þynnupakkningu og

eina sprittþurrku.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Markaðsleyfishafi

Accord Healthcare S.L.U.

World Trade Center, Moll de Barcelona, s/n,

Edifici Est 6ª planta,

08039 Barcelona,

Spánn

Framleiðandi

Accord Healthcare Limited

Sage House, 319 Pinner Road

North Harrow, Middlesex HA1 4HF

Bretland

Accord Healthcare Polska Sp.z o.o.,

ul. Lutomierska 50,95-200 Pabianice, Pólland

Hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa á hverjum stað ef óskað er upplýsinga um lyfið.

AT / BE / BG / CY / CZ / DE / DK / EE / EL / FI / FR / HR / HU / IS / LT / LV / LX/ MT / NL / NO /

PT / PL / RO / SE / SI / SK / UK/ ES

Accord Healthcare S.L.U.

Tel: +34 93 301 00 64

Accord Healthcare Limited

Tel: +39 02 94323700

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í {MM/ÁÁÁÁ}

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu.

Upplýsingar á íslensku eru á http://www.serlyfjaskra.is.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Eftirfarandi upplýsingar eru einungis ætlaðar heilbrigðisstarfsmönnum:

Pelgraz inniheldur engin rotvarnarefni. Vegna hættu á örverumengun eru Pelgraz sprautur aðeins

einnota.

Má ekki frjósa. Ef Pelgraz frýs fyrir slysni í innan við 24 klst. hefur það ekki skaðleg áhrif á

stöðugleika Pelgraz. Ef það frýs lengur en 24 klst. eða oftar en einu sinni skal EKKI nota Pelgraz.

Til þess að bæta rekjanleika hvítkornavaxtarþátta skal skrá heiti lyfsins (Pelgraz) og lotunúmer

greinilega í sjúkraskrá sjúklingsins.

Notkun áfylltu sprautunnar með nálarvörn

Nálarvörnin hylur nálina eftir inndælingu til þess að koma í veg fyrir áverka af völdum nálarstungu.

Þetta hefur engin áhrif á eðlilega notkun sprautunnar. Þrýsta skal jafnt og hægt á bulluna þar til allur

skammturinn hefur verið gefinn og ekki er hægt að þrýsta bullunni lengra. Viðhalda skal þrýstingi á

bullunni þegar sprautan er fjarlægð af stungustað. Nálarvörnin mun hylja nálina þegar bullunni er

sleppt.

Förgun

Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi í samræmi við gildandi reglur.