Prednisolone Actavis

Helstu upplýsingar

 • Heiti vöru:
 • Prednisolone Actavis Tafla 5 mg
 • Skammtar:
 • 5 mg
 • Lyfjaform:
 • Tafla
 • Lyf við lungum:
 • Mannfólk
 • Lyfjaform:
 • Allópatísk lyf

Skjöl

Staðsetning

 • Fáanlegt í:
 • Prednisolone Actavis Tafla 5 mg
  Ísland
 • Tungumál:
 • íslenska

Staða

 • Heimild:
 • LYFJASTOFNUN - Icelandic Medicines Agency
 • Leyfisnúmer:
 • cd621a4a-aac8-df11-a1f6-0016e6045f8e
 • Síðasta uppfærsla:
 • 14-06-2018

Upplýsingar um fylgiseðil sjúklinga: samsetning, vísbendingar, aukaverkanir, skammtar, milliverkanir, aukaverkanir, meðgöngu, brjóstagjöf

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Prednisolone Actavis 1 mg og 5 mg töflur

Prednisólón

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að taka lyfið. Í honum eru mikilvægar

upplýsingar.

Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um lyfið.

Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið

þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir

sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli.

Prednisólón er steralyf, sem er ávísað við ýmsum sjúkdómum, þ.m.t. alvarlegum sjúkdómum.

Þú verður að taka það reglulega til að það hafi full áhrif.

Ekki hætta að taka lyfið án þess að ræða það við lækninn - þú gætir þurft að draga smám

saman úr skammtinum.

Prednisólón getur valdið aukaverkunum hjá sumu fólki (lestu kafla 4 hér neðar). Sumar

aukaverkanir eins og skapbreytingar (depurð eða að „vera hátt uppi“) eða magavandamál geta

komið fram strax. Ef þér líður illa á einhvern hátt skaltu halda áfram að taka töflurnar en hafa

strax samband við lækninn.

Sumar aukaverkanir koma aðeins fram eftir vikur eða mánuði. Þar á meðal er máttleysi í

hand- og fótleggjum og að notandinn verði kringluleitur (sjá frekari upplýsingar í kafla 4).

Láttu lækna og hjúkrunarfræðinga sem meðhöndla þig vita af því að þú notir prednisólón.

Haltu þig frá fólki sem er með hlaupabólu eða ristil, ef þú hefur ekki fengið þessa sjúkdóma.

Þeir gætu haft alvarleg áhrif á þig. Ef þú kemst í snertingu við hlaupabólu eða ristil, skalt þú

strax hafa samband við lækninn.

Lestu núna fylgiseðilinn til enda. Í honum eru mikilvægar upplýsingar um örugga og áhrifaríka

notkun á þessu lyfi, sem gætu verið sérstaklega mikilvægar fyrir þig.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

Upplýsingar um Prednisolone Actavis og við hverju það er notað

Áður en byrjað er að nota Prednisolone Actavis

Hvernig nota á Prednisolone Actavis

Hugsanlegar aukaverkanir

Hvernig geyma á Prednisolone Actavis

Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.

Upplýsingar um Prednisolone Actavis og við hverju það er notað

Prednisólón tilheyrir flokki lyfja sem kölluð eru sterar. Fullt nafn þeirra er barksterar. Barksterar eru

náttúruleg efni sem finnast í líkamanum og taka þátt í að viðhalda góðri heilsu og vellíðan. Inntaka

barkstera (eins og prednisólóns) er áhrifarík leið til meðhöndlunar á ýmsum kvillum sem hafa í för

með sér bólgur í líkamanum.

Prednisólón dregur úr bólgum sem gætu annars gert ástand þitt verra. Þú þarft að taka þetta lyf

reglulega til að það hafi full áhrif.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í

þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

2.

Áður en byrjað er að nota Prednisolone Actavis

Ekki má nota Prednisolone Actavis

ef um er að ræða ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í

kafla 6). Ofnæmisviðbrögð geta verið útbrot, kláði, öndunarerfiðleikar eða þrútnun í andliti,

vörum, hálsi eða tungu.

ef þú ert með áblástur við augu.

ef þú ert með ómeðhöndlaða sýkingu.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Prednisolone Actavis er notað

ef þú hefur verið í snertingu við einhvern með hlaupabólu, ristil eða mislinga. Hafðu strax

samband við lækninn

ef sykursýki eða gláka er í fjölskyldu þinni

ef þú ert með beinþynningu, háan blóðþrýsting, hefur nýlega fengið hjartaáfall, magasár,

vanvirkan skjaldkirtil, flogaveiki, berkla eða blóðeitrun

ef þú hefur áður tekið prednisólón töflur (eða sambærilegt lyf) og fékkst þá vöðvakvilla

ef þú ert með hjarta-, nýrna- eða lifrarkvilla/sjúkdóm

ef þú ert með eða hefur þjáðst af geðsjúkdómi

ef á að bólusetja þig

ef þú hefur einhverntíma verið með alvarlegt þunglyndi eða geðhvörf. Það á einnig við ef þú

hefur fundið fyrir þunglyndi áður þegar þú hefur tekið steralyf eins og prednisólón eða ef

einhver í þinni nánustu fjölskyldu hefur haft þennan sjúkdóm

Geðræn vandamál á meðan á töku prednisólón stendur:

Geðræn vandamál geta komið fram þegar sterar eins og prednisólón eru notaðir (sjá kafla 4,

„Hugsanlegar aukaverkanir“)

- þessar aukaverkanir geta verið alvarlegar

- þær koma venjulega fram innan fárra daga eða vikna frá því meðferð hefst

- meiri líkur eru á aukaverkunum þegar teknir eru stórir skammtar

- þær hverfa flestar ef skammturinn er minnkaður eða hætt er að taka lyfið. Ef aukaverkanir

koma fram gætu þær krafist meðferðar.

Ræddu við lækninn ef þú (eða einhver sem notar þetta lyf) finnur fyrir eða sýnir einhver merki um

geðræn vandamál. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef þú finnur fyrir þunglyndi eða leiðir hugann að

sjálfsvígi. Í sumum tilfellum hafa geðræn vandamál komið fram þegar dregið er úr skömmtum eða

meðferð hætt.

Notkun annarra lyfja samhliða Prednisolone Actavis

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu

að verða notuð

lyf við háum blóðþrýstingi eða þvagræsilyf („bjúgtöflur“)

lyf við flogaveiki, s.s. karbamazepín, fenóbarbital, önnur barbitúröt, fenýtóín, primidón,

fenýlbutazón

lyf við sykursýki, þ.m.t. insúlín

lyf við sýkingum eins og rifabútín, rifampicín, amfótericín, ketókónazól, tetracýklín

lyf við krabbameini svo sem etoposíð

metótrexat (við liðbólgu, Crohns sjúkdómi, sóríasis)

mifepristón (notað við fóstureyðingu)

ciclosporín (notað til að hindra að líkaminn hafni ígræddu líffæri)

retinóíð (við húðkvillum)

segavarnarlyf sem notuð eru til að þynna blóðið

getnaðarvarnarlyf til inntöku (pilluna)

önnur bólgueyðandi gigtarlyf (NSAID) eða aspirín

amínóglutethimíð, acetazolomíð, carbenoxolón eða salisýlöt

sýrubindandi lyf (við meltingartruflun)

carbimazól (við skjaldvakaeitrun)

teófyllín (við astma).

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum

eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Akstur og notkun véla

Ef þú færð ekki nægan svefn gætir þú haft lélegri einbeitingu. Þú þarft að vera viss um að lyfið hafi

ekki áhrif á viðbragðshæfni þína áður en þú ekur eða stjórnar vélum.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt

af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og

aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða

þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Prednisolone Actavis inniheldur laktósa

Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækninn áður en lyfið er tekið inn.

Ef þú ferð til annars læknis eða á spítala, skalt þú láta vita hvaða lyf þú tekur.

3.

Hvernig nota á Prednisolone Actavis

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita

upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Gleyptu töflurnar heilar með smávegis vatni. Taktu allan dagsskammtinn í einu lagi að morgni eftir

morgunmat, nema læknirinn hafi gefið þér aðrar leiðbeiningar.

Venjulegir skammtar eru:

Fullorðnir: 20-40 mg á dag í byrjun en allt að 80 mg á dag, sem er síðan minnkað í viðhaldsskammt

sem er 5-20 mg á dag.

Börn: Börn eiga ekki að taka jafn margar töflur og fullorðnir. Læknirinn mun ákveða hversu mikið

þau eiga að taka.

Verið getur að breyta þurfi skammtastærð meðan á meðferð stendur til að nota minnsta virkan

skammt, sem fer eftir svörun þinni við lyfinu.

Ef þú notar lyf við sykursýki getur verið að þú þurfir að nota meira af því til að vega upp á móti

áhrifum prednisólón taflanna. Þú ættir að ræða þetta við lækninn.

Læknirinn ætti að athuga framfarir þínar í reglulegum heimsóknum. Einnig þarf að fylgjast með

ástandi þínu eftir að þú hættir að nota þetta lyf, þar sem sum áhrif þess gætu varað áfram.

Ef stærri skammtur en mælt er fyrir um er notaður

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa

samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).

Ef gleymist að nota Prednisolone Actavis töflur

Ef þú gleymir að taka skammt skalt þú taka hann strax og þú manst eftir því og taka síðan næsta

skammt á venjulegum tíma. Takið aldrei tvöfaldan skammt í einu.

Ef hætt er að nota Prednisolone Actavis töflur

Ef þú hættir snögglega að taka lyfið gætir þú fengið vöðva- eða liðverki, tárubólgu, hita, þyngdartap,

sársaukafull húðútbrot með kláða eða nefrennsli. Ræddu við lækninn áður en þú hættir að taka lyfið

og fylgdu ráðum hans.

4.

Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum, sérstaklega þegar byrjað er að taka lyfið,

en það gerist þó ekki hjá öllum.

Hættu strax að taka Prednisolone Actavis töflurnar og hafðu umsvifalaust samband við lækninn ef

eftirfarandi ofnæmisviðbrögð koma fram: þrútið andlit, tunga eða líkami, sem geta valdið mæði, losti

og örmögnun.

Láttu lækninn strax vita ef eitthvað af eftirfarandi gerist:

brisbólga (mjög miklir kviðverkir)

sterar, þ.m.t. Prednisolone Actavis töflur, geta valdið alvarlegum geðrænum vandamálum. Slíkar

aukaverkanir eru algengar hjá bæði fullorðnum og börnum og hafa áhrif á u.þ.b. 5 af hverjum

100 einstaklingum sem taka lyf eins og Prednisolone Actavis töflur:

depurð eða þunglyndi, þ.m.t. sjálfsvígshugsanir

að „vera hátt uppi“ (oflæti) eða sveiflast upp og niður í skapi

kvíði, erfiðleikar með svefn, erfiðleikar við að hugsa eða vera ruglaður og missa minnið

finna fyrir, sjá eða heyra eitthvað sem ekki er til staðar. Undarlegar og óttalegar hugsanir

sem breyta framkomu þinni eða tilfinning fyrir að vera ein(n)

finnast sem þú sért háð(ur) lyfinu.

Láttu lækninn vita ef eitthvað af eftirfarandi gerist:

Sýkingar - lyfið minnkar viðnám við sýkingum eins og kvefi, augnsýkingar gætu versnað eða einkenni

fyrri sýkinga svo sem berkla geta komið fram aftur. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef þú telur að þú

gætir hafa sýkst af hlaupabólu eða mislingum.

Magi og þarmar - aukin matarlyst, meltingartruflanir, uppþemba, mjög sár háls og hvít svæði í munni

(munnskóf), ógleði, þyngdaraukning, magasár eða -rof (þér getur verið óglatt eða illt eftir máltíð),

einkum þeir sem hafa heilkenni ristilertingar.

Hjarta - hár blóðþrýstingur, hjartabilun hjá sjúklingum í áhættuhópi.

Taugakerfi/geðræn vandamál - óvenjuleg þreyta eða máttleysi, óróleiki, geðklofi versnar, aukinn

þrýstingur í höfði (veldur verk í augum, sjóntruflunum eða slæmum höfuðverk sérstaklega bak við

augun), önuglyndi, breytt hegðun.

Húð - blárauðar línur, þunn húð, óvenjumiklir marblettir, þrymlabólur, sár sem ekki gróa.

Vöðvar og bein - slappir vöðvar eða vöðvarýrnun, verkir í baki, mjöðmum, rifjum, örmum, öxlum eða

fótleggjum. Beinþynning (bein brotna auðveldlegar og meiri hætta á sinasliti).

Innkirtlar - aukin fylling í andliti eða það verður kringluleitt, tíðir verða óreglulegar eða hætta alveg,

óvenjulegur hárvöxtur á líkama eða andliti, breyting á blóðsykri (sykursjúkir gætu þurft breyttan

skammt sykursýkilyfja), breyting á próteinum og kalki í líkamanum, þyngdaraukning. Hægt getur á

vexti hjá ungbörnum, börnum og unglingum. Cushingssjúkdómur sem er hormónaröskun og getur

valdið hraðri þyngdaraukningu, einkum á búk og í andliti, þynningu húðar og svita.

Nýru - þvaglát um nætur, uppsöfnun vatns og salta, kalíumtap með þvagi.

Blóð - blóðtappar, breytingar á jafnvægi steinefna í blóði (kemur fram í blóðprufu).

Augu - drer, aukinn augnþrýstingur (gláka), þynning á vefjum í auga, þrýstingur á augntaug, breyting á

sjón, reköld fyrir auga eða verkur í auga, blindblettir, bjögun á beinum línum eða hlutir virðast

minni/fjarlægari.

Annað - versnun flogaveiki, almenn vanlíðan.

Fráhvarfseinkenni - vöðva- eða liðverkir, tárubólga, hiti, þyngdartap, nefrennsli, sársaukafull

húðútbrot með kláða.

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um

aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint

til Lyfjastofnunar, www.lyfjastofnun.is. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að

auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.

Hvernig geyma á Prednisolone Actavis

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Geymið við lægri hita en 25˚C á þurrum stað og verjið gegn ljósi.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á umbúðunum. Fyrningardagsetning er

síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í

apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda

umhverfið.

6.

Pakkningar og aðrar upplýsingar

Prednisolone Actavis inniheldur

Virka innihaldsefnið (efnið sem gerir að töflurnar verka) er prednisólón. Hver tafla inniheldur

annað hvort 1 mg eða 5 mg af virka efninu.

Önnur innihaldsefni eru laktósaeinhýdrat, maíssterkja, póvídón, hreinsað talkúm, vatnsfrí

kísilkvoða, magnesíumstearat.

Lýsing á útliti Prednisolone Actavis taflna og pakkningastærðir

Prednisolone Actavis eru hvítar, kringlóttar, flatar töflur með skáa á brúnum.

Þynnupakkning: 28, 56, 84 og 98 töflur.

Töfluílát: 28, 56, 84, 500 og 1000 (aðeins 5 mg töflur).

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Actavis UK Limited, Barnstaple, N Devon EX32 8NS, Bretland.

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í febrúar 2016.