Attentin

Helstu upplýsingar

 • Heiti vöru:
 • Attentin Tafla 20 mg
 • Skammtar:
 • 20 mg
 • Lyfjaform:
 • Tafla
 • Lyf við lungum:
 • Mannfólk
 • Lyfjaform:
 • Allópatísk lyf

Skjöl

Staðsetning

 • Fáanlegt í:
 • Attentin Tafla 20 mg
  Ísland
 • Tungumál:
 • íslenska

Staða

 • Heimild:
 • LYFJASTOFNUN - Icelandic Medicines Agency
 • Leyfisnúmer:
 • 550431e4-d36b-4665-b1f9-f3ca06f6a85f
 • Síðasta uppfærsla:
 • 14-06-2018

Upplýsingar um fylgiseðil sjúklinga: samsetning, vísbendingar, aukaverkanir, skammtar, milliverkanir, aukaverkanir, meðgöngu, brjóstagjöf

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Attentin 10 mg töflur

Attentin 20 mg töflur

Dexamfetamin súlfat

Þetta lyf er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og

örugglega til skila. Allir geta hjálpað til við þetta með því að tilkynna aukaverkanir sem koma fram.

Aftast í kafla 4 eru upplýsingar um hvernig tilkynna á aukaverkanir.

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar

upplýsingar.

Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum.

Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið

þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir

sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar

Upplýsingar um Attentin og við hverju það er notað

Áður en byrjað er að nota Attentin

Hvernig nota á Attentin

Hugsanlegar aukaverkanir

Hvernig geyma á Attentin

Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.

Upplýsingar um Attentin og við hverju það er notað

Hvað Attentin er

Attentin töflur innihalda virka efnið dexamfetamin súlfat.

Attentin er geðörvandi lyf. Það bætir virkni í hluta heilans. Þetta lyf getur bætt athygli, einbeitingu og

dregið úr hvatvísri hegðun.

Til hvers það er notað

Attentin er notað til að meðhöndla athyglisbrest með ofvirkni (ADHD).

Það er notað fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára.

Það er ekki ætlað til notkunar hjá öllum börnum með ADHD.

Það er eingöngu notað þegar annað lyf sem kallast methylphenidat hefur ekki virkað nógu vel.

Eingöngu á að nota það sem hluta af meðferðaráætlun sem venjulega felur í sér sálfræðileg,

menntunarleg og félagsleg úrræði.

Meðferð með Attentin má eingöngu vera hafin af og vera undir umsjón sérfræðings í

hegðunarvandamálum hjá börnum og unglingum.

Þú verður að ræða við lækninn ef barninu líður ekki betur eftir mánuð eða ef því líður verr. Læknirinn

gæti ákveðið að þörf sé á annarri meðferð.

2.

Áður en byrjað er að nota Attentin

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í

þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknisins og leiðbeiningum á merkimiða frá

lyfjabúð.

Ekki má nota Attentin ef barnið þitt:

er með ofnæmi fyrir dexamfetamini eða öðrum amfetamínsamböndum eða einhverju öðru

innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6)

er með skjaldkirtilsvandamál

er með aukinn þrýsting í auga (gláku)

er með æxli í nýrnahettu (krómfíklaæxli)

er með átröskun, finnur ekki fyrir svengd eða hefur ekki matarlyst (t.d. lystarstol)

er með mjög háan blóðþrýsting eða þrengsli í æðum sem valda verk í handleggjum og

fótleggjum

er með mikla æðakölkun

hefur einhvern tíma haft hjartakvilla – svo sem fengið hjartaáfall, haft óreglulegan hjartslátt,

fengið verk eða óþægindi fyrir brjósti, hjartabilun, hjartasjúkdóm eða er með meðfæddan

hjartakvilla

hefur haft einkenni frá æðum í heila – svo sem fengið slag, útvíkkun og þynningu á hluta æðar

(slagæðagúlp), þröngar eða stíflaðar æðar eða bólgu í æðum (æðabólga)

er með geðræn vandamál, eins og:

siðblindu eða jaðarpersónuleikaröskun

óeðlilegar hugsanir eða sýnir eða geðklofa

einkenni um alvarlegar geðraskanir, eins og:

sjálfsvígshugsanir

alvarlegt þunglyndi

oflæti

notar eða hefur á síðustu 14 dögum notað þunglyndislyf (þekkt sem mónóamín oxídasahemlar)

– sjá „Notkun annarra lyfja samhliða Attentin“ hér aftar

hefur einhvern tíma misnotað áfengi, lyfseðilsskyld lyf eða fíkniefni

eða einhver í fjölskyldunni er með Tourette heilkenni eða aðra hreyfi- eða raddkippi

er með endurtekna kippi í einhverjum hluta líkamans sem erfitt er að stjórna eða endurtekur

hljóð og orð

er með porfýríu

Ekki má nota lyfið ef eitthvað af framangreindu á við um barnið þitt. Ef þú ert ekki viss skaltu ráðfæra

þig við lækninn eða lyfjafræðing áður en Attentin er notað. Það er vegna þess að lyfið getur gert þessi

vandamál verri.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Attentin er notað ef barnið þitt:

er með blóð-, lifrar- eða nýrnakvilla

er ofurviðkvæmt eða er með óstöðugan persónuleika

hefur fengið köst (flog, krampa, flogaveiki) eða hefur haft óeðlilegt heilalínurit (EEG rit)

er stúlka og er byrjuð að hafa tíðablæðingar (sjá „Meðganga og brjóstagjöf“ hér aftar)

er með háan blóðþrýsting

er með hjartakvilla sem ekki er talinn upp í „Ekki má nota“ kaflanum hér framar

er með geðrænt vandamál sem ekki er talið upp í „Ekki má nota“ kaflanum hér framar. Þetta

getur falið í sér skapsveiflur, óvenjulega árásarhneigð, ofskynjanir, ranghugmyndir,

ofsóknaræði, æsing og kvíða, sektartilfinningu eða þunglyndi.

Láttu lækninn eða lyfjafræðing vita áður en meðferð er hafin ef eitthvað af framangreindu á við um

barnið þitt. Það er vegna þess að lyfið getur gert þessi vandamál verri. Læknirinn mun fylgjast með því

hvaða áhrif lyfið hefur á barnið þitt.

Atriði sem læknirinn athugar áður en byrjað er að nota Attentin

Þessar athuganir eru til þess að meta hvort þetta sé rétta lyfið fyrir barnið þitt. Læknirinn mun ræða við

þig um:

önnur lyf sem barnið þitt notar

hvort til staðar sé fjölskyldusaga um skyndilegt dauðsfall af óþekktum orsökum

hvort þú eða einhver í fjölskyldunni sé með einhverja aðra sjúkdóma (svo sem hjartakvilla)

hvernig barninu þínu líður, er glaðvært eða dapurt, hafi undarlegar hugsanir og hvort barnið þitt

hefur einhvern tíma haft slíkar tilfinningar

hvort einhver í fjölskyldunni hafi „kæki“ (erfiðleika með að stjórna endurteknum, ósjálfráðum

hreyfingum, hljóðum eða orðum)

hvort þú eða einhver í fjölskyldunni hafi einhvern tíma átt við geðræn vandamál eða

hegðunarvandamál að stríða.

Læknirinn mun ræða við þig til að finna út hvort barnið þitt eigi á hættu að fá geðsveiflur (frá oflæti

yfir í þunglyndi – nefnt „geðhvarfasýki“). Hann mun einnig athuga hvernig barnið þitt hefur haft það

andlega fram að þessu og hvort fjölskyldusaga sé um sjálfsvíg, geðhvarfasýki eða þunglyndi.

Mikilvægt er að þú veitir eins miklar upplýsingar og þú getur. Það auðveldar lækninum að meta hvort

Attentin sé rétta lyfið fyrir barnið þitt. Læknirinn gæti ákveðið að þörf sé á frekari læknisfræðilegum

rannsóknum áður en barnið þitt byrjar að nota lyfið.

Áhrif á þyngd/vöxt

Attentin getur valdið minnkaðri þyngd hjá sumum börnum og unglingum.

Þyngdaraukning getur verið of lítil.

Læknirinn mun fylgjast vel með hæð og þyngd barnsins, ásamt því hversu vel barnið borðar.

Ef barnið er ekki að vaxa sem skyldi getur læknirinn stöðvað meðferðina með Attentin í stuttan

tíma.

Skurðaðgerð

Láttu lækninn vita ef barnið er að fara í skurðaðgerð. Ekki má taka Attentin á aðgerðardaginn ef nota

þarf ákveðna gerð af svæfingalyfjum. Það er vegna þess að hætta er á að blóðþrýstingurinn hækki

skyndilega á meðan á aðgerð stendur.

Lyfjapróf

Lyfið getur valdið jákvæðri niðurstöðu úr lyfjaprófi. Íþróttafólk þarf að vera meðvitað um að þetta lyf

getur valdið jákvæðri niðurstöðu úr „lyfjaneysluprófi“.

Börn og unglingar

Attentin er hvorki ætlað til meðferðar á ADHD hjá börnum yngri en 6 ára, né hjá fullorðnum. Ekki er

þekkt hvort það er öruggt eða árangursríkt hjá þessum einstaklingum.

Notkun annarra lyfja samhliða Attentin

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem barnið notar, hefur nýlega notað eða kynni

að nota. Þar með talin lyf sem fengin eru án lyfseðils.

Mónóamín oxídasahemlar

Ekki nota þetta lyf ef barnið þitt notar lyf sem kallast „mónóamín oxídasahemill“ (MAO-hemill),

notað við þunglyndi, eða hefur notað MAO-hemil síðastliðna 14 daga. Notkun MAO-hemils ásamt

dexamfetamini getur valdið skyndilegri hækkun á blóðþrýstingi.

Ef barnið þitt notar önnur lyf getur þetta lyf haft áhrif á verkun þeirra eða valdið aukaverkunum. Ef

barnið þitt notar eitthvert eftirtalinna lyfja skaltu ráðfæra þig við lækninn eða lyfjafræðinginn áður en

Attentin er notað:

önnur lyf við þunglyndi, t.d. þríhringlaga þunglyndislyf og sérhæfðir serótónín

endurupptökuhemlar

lyf við alvarlegum geðsjúkdómum, t.d. fentíazín og haldoperidol

lyf við flogaveiki, t.d. krampastillandi lyf eins og phenobarbital, phenytoin, primidon og

ethosuximid

lyf sem notuð eru til að hætta notkun áfengis, t.d. disulfiram

lyf sem notuð eru til að lækka eða hækka blóðþrýsting, t.d. guanethidin, clonidin, reserpin eða

alfa-methyltyrosin, eða beta-blokkar eins og propranolol

sum meðul við hósta og kvefi sem innhalda efni sem geta haft áhrif á blóðþrýsting

Mikilvægt er að tala við lyfjafræðinginn þegar þú kaupir einhver slík lyf

lyf sem þynna blóðið til að koma í veg fyrir blóðtappa, t.d. kúmarín segavarnarlyf

öll lyf sem innihalda glútamínsýru, askorbínsýru, ammóníum klóríð, natríumsýru fosfat, natríum

bíkarbónat, acetazolamid, tíazíð

eitthvert af eftirfarandi lyfjum: beta-blokkar, andhistamín, lithium, noradrenalin, morphin og

meperidin.

Ef þú ert í einhverjum vafa um hvort eitthvað af þeim lyfjum sem barnið þitt notar sé á listanum hér að

framan skaltu ráðfæra þig við lækninn eða lyfjafræðing áður en lyfið er notað.

Notkun Attentin samhliða áfengi

Ekki má neyta áfengis á meðan lyfið er notað. Gættu að því að sumar fæðutegundir og sum lyf

innihalda áfengi.

Meðganga og brjóstagjöf

Attentin getur haft áhrif á barn í móðurkviði.

Ef dóttir þín er þunguð eða með barn á brjósti, ef hún gæti verið þunguð eða ráðgerir að verða þunguð,

skaltu leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Læknirinn mun ræða um getnaðarvarnir.

Ef dóttir þín er þunguð gæti hún þurft að hætta notkun þessa lyfs.

Hugsanlegt er að lyfið berist í brjóstamjólk. Því mun læknirinn meta hvort dóttir þín eigi að

hætta brjóstagjöf eða hætta að nota lyfið.

Akstur og notkun véla

Barnið þitt gæti fundið fyrir sundli, átt í erfiðleikum með sjónskerpu eða sjónin orðið þokukennd þegar

þetta lyf er notað. Ef það gerist getur verið hættulegt að aka bíl, nota vélar, hjóla á reiðhjóli, fara á

hestbak eða klifra í trjám.

Attentin inniheldur ísómalt (E953)

Ef læknirinn hefur sagt þér að barnið þitt hafi óþol fyrir sumum gerðum sykurs, hafðu þá samband við

lækninn áður en lyfið er notað.

3.

Hvernig nota á Attentin

Hversu mikið á að taka

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á

lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Venjulegur ráðlagður skammtur er á bilinu 5 mg til 20 mg.

Læknirinn byrjar meðferðina venjulega með litlum skammti, einni Attentin töflu. Skammturinn

er aukinn smám saman um eina Attentin töflu með viku millibili, eins og þörf krefur.

Hámarks dagskammtur er 20 mg (í mjög sjaldgæfum tilfellum getur þurft að nota 40 mg).

Ákvörðunin um hvort gefa eigi Attentin einu sinni eða tvisvar á dag ætti að byggjast á

einkennum á mismunandi tíma dags.

Notkun

Lyfið er til inntöku.

Barnið þitt á að taka Attentin töflur með vatni, helst með mat eða strax eftir máltíð. Alltaf skal taka

Attentin töflurnar á sama tíma dags í tenglum við máltíðir. Almennt ætti ekki að taka síðasta skammt

of löngu eftir hádegi til að forðast erfiðleika við að sofna.

Töflurnar eru með deiliskoru og þeim má skipta, ef þarf. Deiliskoran er eingöngu til þess að hjálpa þér

að brjóta töfluna ef það eru erfiðleikar með að gleypa hana heila en ekki til að skipta henni í jafna

skammta. Til að skipta töflunni skal setja hana á hart yfirborð þannig að hliðin með deiliskorunni snúi

niður, síðan skal þrýsta varlega með vísifingri á miðja töfluna á þeirri hlið sem snýr upp. Þá brotnar

taflan í fjóra hluta.

Ef barninu þínu líður ekki betur skaltu láta lækninn vita. Læknirinn gæti metið það svo að þörf sé á

annars konar meðferð.

Langtíma meðferð

Læknirinn mun ákveða hversu lengi meðferðin varir. Ef barnið þitt notar lyfið lengur en í eitt ár mun

læknirinn stöðva meðferðina í stuttan tíma, t.d. í skólafríi. Þá kemur í ljós hvort enn er þörf fyrir lyfið.

Ef Attentin er ekki notað rétt

Ef Attentin er ekki notað rétt getur það valdið óeðlilegri hegðun. Slíkt getur líka þýtt að barnið þitt sé

að verða háð lyfinu. Láttu lækninn vita ef barnið þitt hefur einhvern tíma misnotað áfengi eða verið

háð áfengi, lyfseðilsskyldum lyfjum eða fíkniefnum.

Þetta lyf er eingöngu ætlað barninu þínu. Ekki má gefa lyfið öðrum, jafnvel þótt um sömu einkenni sé

að ræða.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið tekinn, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal strax hafa

samband við lækni, sjúkrahús, eitrunarmiðstöð (sími 543 2222) eða hringja á sjúkrabíl. Láttu vita

hversu mikið hefur verið tekið af lyfinu. Sýndu lækninum pakkninguna eða þennan fylgiseðil.

Ofskammtur af þessum töflum getur verið mjög alvarlegur.

Vísbendingar ofskömmtunar geta verið: æsingur, ofskynjanir, krampar sem leiða til

meðvitundarleysis, óreglulegur og hraður hjartsláttur og minnkuð öndun.

Ef gleymist að taka Attentin

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka. Ef barnið þitt gleymir

skammti á að bíða með að taka lyfið þar til komið er að næsta skammti.

Ef hætt er að nota Attentin

Ef barnið þitt hættir snögglega að nota lyfið getur það leitt til óhemju mikillar þreytu, þunglyndis,

geðraskana, æsings, svefntruflana, aukinnar matarlystar eða ósjálfráðra hreyfinga. Læknirinn gæti

viljað minnka skammtinn sem tekinn er daglega af lyfinu smám saman áður en hætt er alveg. Talaðu

við lækninn áður en hætt er að nota Attentin.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.

Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Læknirinn mun ræða við þig um þessar aukaverkanir.

Mjög algengar: geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum

minnkuð matarlyst, minnkuð þyngdaraukning og þyngdartap við langtíma notkun hjá börnum

erfiðleikar með svefn

taugaóstyrkur

Algengar: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum

óreglulegur eða aukinn hjartsláttur, hjartsláttur sem frekar er tekið eftir

kviðverkur og/eða krampar í kvið, ógleði, uppköst, munnþurrkur

Þessi áhrif koma venjulega fram í upphafi meðferðar og hægt er að draga úr þeim með því að taka

lyfið með mat.

breytingar á blóðþrýstingi og hjartsláttartíðni (yfirleitt aukning)

liðverkir

tilfinning um sundl eða að „hringsnúast“, rykkjóttar eða ósjálfráðar hreyfingar, höfuðverkur,

ofvirkni

óeðlileg hegðun, árásarhneigð, ofurnæmi, lystarleysi, kvíði, þunglyndi, pirringur

Mjög sjaldgæfar: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 1.000 einstaklingum

hjartaöng

erfiðleikar með sjónskerpu og fókus, þokusýn, útvíkkuð sjáöldur

minnkuð hæðaraukning við langtíma notkun hjá börnum

þreyta

útbrot, ofsakláði

Koma örsjaldan fyrir: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10.000 einstaklingum

fækkun rauðra blóðkorna sem veldur fölva á húð og máttleysi eða mæði, breyting á fjölda

blóðfrumna (hvítfrumnafæð, blóðflagnafæð, blóðflagnafæðar purpuri)

hjartastopp

Tourette heilkenni

óeðlileg lifrarstarfsemi, allt frá hækkun á gildum lifrarensíma til lifrardás

sinadráttur

krampar, ósjálfráðar hreyfingar (fettu-brettu hreyfingar), blæðing innan höfuðkúpu

ofskynjanir, geðrof/geðrofseinkenni, sjálfsvígshegðun eða sjálfsvíg, kippir, versnun á kippum

sem voru til staðar fyrir

rauðar húðbreytingar með kláða (regnbogaroði) eða hreistraðir flekkir

(skinnflagningshúðbólga), endurtekin útbrot sem koma fyrir á sama stað í hvert sinn sem lyfið

er tekið (staðbundin lyfjaútbrot)

bólga í æðum í mænu og heila (heilaslagæðabólga) og/eða teppa

Tíðni ekki þekkt: ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum

hjartavöðvasjúkdómur (hjartavöðvakvilli), hjartaáfall

bólga í hluta ristils þegar blóðflæði er minnkað (blóðþurrðar ristilbólga), niðurgangur

brjóstverkur, vaxtarskerðing við langvarandi notkun, aukinn líkamshiti, ofnæmisviðbrögð þar

með talið alvarleg ofnæmisviðbrögð sem valda bólgu í andliti eða hálsi (ofnæmisbjúgur) og

alvarleg ofnæmisviðbrögð sem valda öndunarerfiðleikum eða sundli (bráðaofnæmi),

skyndidauði

truflun á sýru-basa jafnvægi líkamans (blóðsýring)

óeðlilegt niðurbrot vöðva sem getur leitt til nýrnavandamála (rákvöðvalýsa)

erfiðleikar með stjórn á hreyfingum (ósamhæfðar hreyfingar), sundl, óeðlilegt eða skert

bragðskyn, einbeitingarerfiðleikar, ofviðbrögð, slag, hristingur (skjálfti)

ringlun, fíkn, vanlíðan, tilfinningalegt ójafnvægi, sæluvíma, skertur árangur á vitsmunaprófi,

breytt kynhvöt, svefnskelfing (night terrors), áráttu- og þráhyggjuhegðun, ofsahræðsla,

ofsóknaræði, eirðarleysi

nýrnaskaði

getuleysi

svitamyndun, hárlos

blóðrásarbilun

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem

ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt

fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er

hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.

Hvernig geyma á Attentin

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á umbúðunum. Fyrningardagsetning er

síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið við lægri hita en 30°C.

Geymið í upprunalegum umbúðum til varnar gegn raka.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í

apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda

umhverfið.

6.

Pakkningar og aðrar upplýsingar

Attentin inniheldur

Virka innihaldsefnið er

dexamfetamin súlfat

Attentin 10 mg:

Hver tafla inniheldur 10 mg af dexamfetamin súlfati.

Attentin 20 mg:

Hver tafla inniheldur 20 mg af dexamfetamin súlfati.

Önnur innihaldsefni eru:

ísómalt (E953)

magnesíum sterat

Lýsing á útliti Attentin og pakkningastærðir

Attentin 10 mg

Hvítar, kringlóttar, smáralauf-laga töflur með tveimur deiliskorum sem mynda kross á annarri hliðinni

og með tveimur deililínum sem mynda kross með upphleyptu „M“ á hverjum fjórðungi á hinni

hliðinni.

Deiliskoran er eingöngu til þess að hægt sé að skipta töflunni svo auðveldara sé að kyngja henni en

ekki til þess að skipta henni í jafna skammta.

Pakkningastærðir: 20, 30 og 50 töflur.

Attentin 20 mg

Hvítar, kringlóttar, smáralauf-laga töflur með tveimur deiliskorum sem mynda kross á annarri hliðinni

og með tveimur deililínum sem mynda kross með upphleyptu „L“ á hverjum fjórðungi á hinni hliðinni.

Deiliskoran er eingöngu til þess að hægt sé að skipta töflunni svo auðveldara sé að kyngja henni en

ekki til þess að skipta henni í jafna skammta.

Pakkningastærðir: 20 og 30 töflur.

Öskjur innihalda töflur pakkaðar í PVC/PVdC álþynnur.

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Medice Arzneimittel Pütter GmbH & Co. KG

Kuhloweg 37

58638 Iserlohn

Þýskaland

Vinsamlega hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa ef óskað er frekari upplýsinga um lyfið

LYFIS ehf.

Grensásvegi 22

108 Reykjavík

Ísland

Sími: 534 3500

Netfang: lyfis@lyfis.is

Þetta lyf hefur markaðsleyfi í löndum Evrópska efnahagssvæðisins undir eftirfarandi heitum:

Bretland:

Amfexa 10 mg, Amfexa 20 mg

Danmörk:

Attentin 10 mg, Attentin 20 mg

Finnland:

Attentin 10 mg, Attentin 20 mg

Ísland:

Attentin 10 mg, Attentin 20 mg

Lúxemborg:

Attentin 10 mg, Attentin 20 mg

Noregur:

Attentin 10 mg, Attentin 20 mg

Spánn:

Amfexa 10 mg, Amfexa 20 mg

Svíþjóð:

Attentin 10 mg, Attentin 20 mg

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í febrúar 2017.