Atozet

Helstu upplýsingar

 • Heiti vöru:
 • Atozet Filmuhúðuð tafla 10 mg/10 mg
 • Skammtar:
 • 10 mg/10 mg
 • Lyfjaform:
 • Filmuhúðuð tafla
 • Lyf við lungum:
 • Mannfólk
 • Lyfjaform:
 • Allópatísk lyf

Skjöl

Staðsetning

 • Fáanlegt í:
 • Atozet Filmuhúðuð tafla 10 mg/10 mg
  Ísland
 • Tungumál:
 • íslenska

Staða

 • Heimild:
 • LYFJASTOFNUN - Icelandic Medicines Agency
 • Leyfisnúmer:
 • b7d3091e-8e26-e311-b19c-001e4f17a1f7
 • Síðasta uppfærsla:
 • 14-06-2018

Upplýsingar um fylgiseðil sjúklinga: samsetning, vísbendingar, aukaverkanir, skammtar, milliverkanir, aukaverkanir, meðgöngu, brjóstagjöf

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

ATOZET 10 mg/10 mg filmuhúðaðar töflur

ATOZET 10 mg/20 mg filmuhúðaðar töflur

ATOZET 10 mg/40 mg filmuhúðaðar töflur

ATOZET 10 mg/80 mg filmuhúðaðar töflur

ezetimíb og atorvastatín

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar

upplýsingar.

Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum.

Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið

þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir

sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar

Upplýsingar um ATOZET og við hverju það er notað

Áður en byrjað er að nota ATOZET

Hvernig nota á ATOZET

Hugsanlegar aukaverkanir

Hvernig geyma á ATOZET

Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.

Upplýsingar um ATOZET og við hverju það er notað

ATOZET er lyf sem notað er til að lækka kólesteról hjá fólki með kólesterólhækkun. ATOZET

inniheldur ezetimíb og atorvastatín.

ATOZET er notað hjá fullorðnum til þess að lækka heildarkólesteról, „slæma“ kólesterólið

(LDL-kólesteról) og fituefni í blóðinu sem kallast þríglýseríð. Að auki eykur ATOZET „góða“

kólesterólið (HDL-kólesteról).

ATOZET dregur úr kólesteróli á tvennan hátt. Það minnkar frásog kólesteróls úr meltingarvegi og

hindrar einnig kólesterólframleiðslu líkamans.

Kólesteról er eitt fjölmargra fituefna í blóði. Heildarkólesteról samanstendur aðallega af LDL- og

HDL-kólesteróli.

LDL-kólesteról er oft kallað „slæma“ kólesterólið því það getur hlaðist upp í slagæðum og myndað

fituskellur. Fituskellur geta með tímanum leitt til þrengingar slagæðanna. Þrengingin getur hægt á eða

stíflað blóðflæði til mikilvægra líffæra eins og hjarta og heila. Stíflun blóðflæðis getur valdið

hjartaáfalli eða slagi.

HDL-kólesteról er oft kallað „góða“ kólesterólið því það hindrar slæma kólesterólið í því að hlaðast

upp í slagæðum og verndar gegn hjartasjúkdómum.

Þríglýseríð er önnur gerð fituefna í blóði sem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum.

ATOZET er notað fyrir sjúklinga sem geta ekki stýrt magni kólesteróls í blóði með mataræði

eingöngu. Þú átt að vera á kólesterólsnauðu fæði samhliða notkun lyfsins.

ATOZET er notað ásamt kólesteróllækkandi mataræði ef þú ert með:

aukið kólesterólmagn í blóði (kólesterólhækkun af óþekktri orsök [arfblendna, ættgenga

kólesterólhækkun og kólesterólhækkun sem ekki er ættgeng]) eða aukið fitumagn í blóði

(samsetta blóðfituhækkun):

þegar meðferð með statíni einu sér ber ekki fullnægjandi árangur

þegar statín og ezetimíb hefur verið notað áður, sitt í hvorri töflunni

arfgengan sjúkdóm (arfhreina, ættgenga kólesterólhækkun) sem eykur kólesterólmagnið í

blóðinu. Þú gætir einnig verið á annarri meðferð.

hjartasjúkdóm. ATOZET dregur úr hættu á hjartaáfalli, heilaslagi, skurðaðgerð til þess að auka

blóðflæði í hjarta eða sjúkrahúsinnlögn vegna brjóstverkja.

ATOZET hjálpar þér ekki að léttast.

2.

Áður en byrjað er að nota ATOZET

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í

þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Ekki má nota ATOZET

ef um er að ræða ofnæmi fyrir ezetimíbi, atorvastatíni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins

(talin upp í kafla 6),

ef þú ert með eða hefur verið með lifrarsjúkdóm,

ef þú hefur fengið óútskýrðar, óeðlilegar niðurstöður úr blóðprófum til að meta lifrarstarfsemi,

ef þú ert kona á barneignaraldri og notar ekki áreiðanlega getnaðarvörn,

ef þú ert þunguð, að reyna að verða þunguð eða með barn á brjósti.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en ATOZET er notað.

ef þú hefur fengið heilaslag með blæðingu inn á heila eða ert með afmarkaða vökvasöfnun í

heila vegna heilaslags,

ef þú ert með nýrnasjúkdóm,

ef þú ert með skjaldkirtil sem starfar ekki eðlilega (vanstarfsemi),

ef þú hefur fengið endurtekna eða óútskýrða vöðvaverki, ert með sögu um vöðvakvilla eða ef

aðrir í fjölskyldu eru með vöðvakvilla,

ef þú hefur fengið vöðvakvilla á meðan á meðferð með lípíðlækkandi lyfjum stóð (t.d. öðrum

„statínum“, eða „fíbrötum“),

ef þú neytir reglulega áfengis í miklu mæli,

ef þú hefur fengið lifrarsjúkdóm,

ef þú ert eldri en 70 ára,

ef læknirinn hefur sagt þér að þú sért með óþol fyrir ákveðnum sykrum, skaltu hafa samband við

lækninn áður en þú tekur lyfið,

ef þú notar eða hefur á síðastliðnum 7 dögum notað lyf sem kallast fúsidínsýra (lyf við

bakteríusýkingu) til inntöku eða inndælingar. Samhliðanotkun fúsidínsýru og Atozet getur

valdið alvarlegum vöðvakvillum (rákvöðvalýsu).

Hafðu tafarlaust samband við lækninn ef þú finnur fyrir óútskýrðum vöðvaverkjum, eymslum

eða máttleysi meðan ATOZET er notað.

Í mjög sjaldgæfum tilfellum geta vöðvakvillar verið

alvarlegir þ.m.t. niðurbrot vöðva sem veldur nýrnaskemmdum. Vitað er að atorvastatín getur valdið

vöðvakvillum og einnig hefur verið greint frá tilfellum vöðvakvilla við notkun ezetimíbs.

Segið lækninum eða lyfjafræðingi einnig frá því ef fram kemur þrálátur vöðvaslappleiki. Vera má að

gera þurfi viðbótarrannsóknir og nota önnur lyf til að greina og meðhöndla þetta ástand.

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en ATOZET er notað:

ef þú ert með alvarlegan öndunarfærasjúkdóm.

Ef eitthvað af þessu á við um þig (eða ef þú ert ekki viss) skaltu tala við lækninn eða lyfjafræðing áður

en ATOZET er tekið vegna þess að læknirinn þarf að framkvæma blóðrannsóknir áður en meðferð

með ATOZET er hafin og hugsanlega meðan á henni stendur til að meta hættuna á vöðvatengdum

aukaverkunum. Vitað er að hættan á vöðvatengdum aukaverkunum, t.d. rákvöðvalýsu, eykst þegar

ákveðin lyf eru tekin samtímis (sjá kafla 2 „Notkun annarra lyfja samhliða ATOZET“).

Meðan á meðferð með lyfinu stendur mun læknirinn fylgjast vel með því hvort þú fáir sykursýki eða

eigir á hættu að fá sykursýki. Þú getur átt á hættu að fá sykursýki ef þú ert með háan blóðsykur eða

blóðfitu, ert í yfirþyngd eða með háan blóðþrýsting.

Láttu lækninn vita af öllum sjúkdómum sem þú ert með, þar með talið ofnæmi.

Forðast skal samhliðanotkun ATOZET og fíbrata (lyf sem lækka kólesteról) vegna þess að

samhliðanotkun ATOZET og fíbrata hefur ekki verið rannsökuð.

Börn

Notkun ATOZET er ekki ráðlögð hjá börnum og unglingum.

Notkun annarra lyfja samhliða ATOZET

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu

að verða notuð.

Sum lyf geta haft áhrif á verkun ATOZET eða ATOZET getur haft áhrif á verkun þeirra (sjá kafla 3).

Þessar milliverkanir geta dregið úr verkun annars eða beggja lyfjanna. Einnig geta milliverkanir aukið

líkur á aukaverkunum eða gert þær alvarlegri, þar með taldar alvarleg áhrif á vöðva, þekkt sem

rákvöðvalýsa, sjá kafla 4:

ciklósporín (lyf sem oft er notað hjá líffæraþegum),

erýtrómýsín, klaritrómýsín, telitrómýsín, fúsidínsýra**, rifampisín (lyf sem notuð eru við

bakteríusýkingum),

ketókónazól, ítrakónazól, vorikónazól, flúkónazól, posakónazól (lyf sem notuð eru við

sveppasýkingum),

gemfíbrózíl, önnur fíbröt, nikótínsýra, afleiður, kolestipól, kólestýramín (lyf sem hafa áhrif á

lípíðmagn),

sumir kalsíumgangalokar sem notaðir eru við hjartaöng eða háum blóðþrýstingi, t.d. amlódipín,

diltíazem,

digoxín, verapamíl, amíódarón (lyf sem notuð eru við hjartsláttartruflunum),

lyf sem notuð eru til að meðhöndla HIV, t.d. ritonavír, lopinavír, atazanivír, indinavír,

darunavír, samsetning tipranavírs/ritonavírs o.s.frv. (lyf við alnæmi),

sum lyf sem notuð eru til að meðhöndla lifrarbólgu-C, t.d. telaprevír.

**Ef þú þarft að taka inn fúsidínsýru við bakteríusýkingu þarft þú að hætta tímabundið að nota

þetta lyf. Læknirinn mun segja þér hvenær óhætt er að byrja aftur að nota ATOZET. Í mjög

sjaldgæfum tilvikum getur notkun ATOZET ásamt fúsidínsýru valdið máttleysi, eymslum eða

verkjum í vöðvum (rákvöðvalýsu). Sjá nánari upplýsingar um rákvöðvalýsu í kafla 4.

Önnur lyf sem vitað er að milliverka við ATOZET:

getnaðarvarnarlyf til inntöku (lyf sem koma í veg fyrir þungun),

stiripentól (krampastillandi lyf við flogaveiki),

cimetidín (lyf sem notað er við brjóstsviða og magasárum),

fenazón (verkjalyf),

sýrubindandi lyf (lyf við meltingartruflunum sem innihalda ál eða magnesíum),

warfarín, phenprókúmon, acenókúmaról eða flúnidín (lyf sem koma í veg fyrir blóðtappa),

veirulyf gegn lifrarbólgu C svo sem boceprevír, elbasvír eða grazoprevír (lyf sem notuð eru

gegn lifrarbólgu-C sýkingu),

kolkisín (colchicine) (notað við þvagsýrugigt),

jóhannesarjurt (lyf við þunglyndi).

Notkun ATOZET með mat eða áfengi

Sjá upplýsingar í kafla 3 um hvernig á að taka ATOZET. Vinsamlegast athugið eftirfarandi:

Greipaldinsafi

Ekki drekka meira en eitt eða tvö lítil glös af greipaldinsafa á sólarhring vegna þess að mikið magn af

greipaldinsafa getur haft áhrif á verkun ATOZET.

Áfengi

Forðastu að drekka of mikið áfengi á meðan lyfið er tekið. Varðandi nánari upplýsingar, sjá kafla 2

„Varnaðarorð og varúðarreglur“.

Meðganga og brjóstagjöf

Ekki taka ATOZET ef þú ert þunguð, ert að reyna að verða þunguð eða grunar að þú sért þunguð.

Ekki taka ATOZET ef þú ert á barneignaraldri nema þú notir örugga getnaðarvörn. Ef þú verður

þunguð meðan á töku ATOZET stendur, skaltu hætta notkun lyfsins án tafar og hafa samband við

lækninn.

Ekki taka ATOZET ef þú ert með barn á brjósti.

Ekki hefur enn verið sýnt fram á öryggi ATOZET á meðgöngu og við brjóstagjöf.

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Akstur og notkun véla

Ekki er gert ráð fyrir að ATOZET hafi áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla.

Hins vegar ber að taka tillit til þess að sumt fólk finnur fyrir svima eftir að hafa tekið ATOZET.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt

af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og

aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða

þetta við lækni eða lyfjafræðing.

ATOZET inniheldur laktósa

ATOZET-töflur innihalda sykru sem kallast laktósi eða mjólkursykur. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið

staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn.

3.

Hvernig nota á ATOZET

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Á grundvelli núverandi meðferðar og

einstaklingsbundins áhættumats ákveður læknirinn viðeigandi styrkleika fyrir þig. Ef ekki er ljóst

hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Áður en meðferð með ATOZET er hafin, áttu að vera á kólesteróllækkandi fæði.

Þú átt að halda áfram að vera á kólesteróllækkandi fæði meðan á ATOZET meðferð stendur.

Hversu mikið á að taka

Ráðlagður skammtur er ein ATOZET-tafla til inntöku einu sinni á sólarhring.

Hvenær á að taka lyfið

Taktu ATOZET hvenær sem er dags. Hægt er að taka lyfið með eða án matar.

Ef læknirinn hefur ávísað ATOZET ásamt kólestýramíni eða öðru gallsýrubindandi lyfi (lyf sem lækka

kólesteról) skal taka ATOZET a.m.k. 2 klukkustundum fyrir eða 4 klukkustundum eftir töku

gallsýrubindandi lyfsins.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa

samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).

Ef gleymist að taka ATOZET

Ekki á að taka tvöfaldan skammt til þess að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka. Taktu

einungis venjulegan skammt af ATOZET á hefðbundnum tíma næsta dag.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.

Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Ef þú finnur fyrir einhverri eftirtalinna alvarlega aukaverkana, skaltu hætta að taka töflurnar

og hafa strax samband við lækninn eða fara á næstu slysavarðstofu eða bráðamóttöku:

alvarleg ofnæmisviðbrögð sem valda þrota í andliti, tungu og hálsi og geta valdið miklum

öndunarerfiðleikum

alvarleg veikindi sem valda verulegri húðflögnun og –þrota, blöðrumyndun á húð, munni,

augum, kynfærum og sótthita; húðútbrotum með bleik-rauðum blettum, sérstaklega í lófum

eða undir iljum, blöðrur geta komið fram.

vöðvaslappleiki, viðkvæmni eða verkur og sérstaklega ef því fylgir slappleiki eða hár

líkamshiti sem getur orsakast af óeðlilegu niðurbroti vöðva. Ástandið getur verið

lífshættulegt og valdið nýrnaskaða.

Leitið ráða hjá lækni eins fljótt og hægt er ef vart verður við óvæntar eða óeðlilegar húðblæðingar eða

mar, vegna þess að þetta gæti bent til lifrarskaða.

Greint hefur verið frá eftirfarandi algengum aukaverkunum (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum

10 sjúklingum):

niðurgangur,

vöðvaverkir.

Greint hefur verið frá eftirfarandi sjaldgæfar aukaverkunum (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum

100 sjúklingum):

flensa,

þunglyndi, erfiðleikar með svefn, svefnröskun,

sundl, höfuðverkur, náladofi,

hægur hjartsláttur,

hitakóf,

mæði,

kviðverkur, kviðþemba, hægðatregða, meltingartruflanir, vindgangur, tíðar hægðir, magabólga,

ógleði, óþægindi í maga, uppþemba,

þrymlabólur, ofsakláði,

liðverkur, bakverkur, sinadráttur, vöðvaþreyta, -krampar eða -slappleiki, verkur í hand- og

fótleggjum,

óeðlilegt þróttleysi, þreyta eða lasleikatilfinning, þroti, sérstaklega við ökkla (bjúgur),

hækkun á sumum niðurstöðum blóðrannsókna á lifrar- eða vöðvastarfsemi,

þyngdaraukning.

Að auki hafa eftirfarandi aukaverkanir komið fram hjá fólki sem hefur notað ATOZET eða ezetimíb-

eða atorvastatíntöflur:

ofnæmisviðbrögð þar með talið þroti í andliti, vörum, tungu og/eða hálsi, sem geta valdið

öndunar- eða kyngingarerfiðleikum (sem gæti krafist bráðameðferðar),

upphleypt rauð útbrot, stundum með vefskemmdum af tiltekinni lögun,

lifrarkvillar,

hósti,

brjóstsviði,

minnkuð matarlyst, lystarleysi,

hár blóðþrýstingur,

húðútbrot og kláði, ofnæmisviðbrögð þar með talið útbrot og ofsakláði,

sinaskaði,

gallsteinar eða bólga í gallblöðru (sem getur valdið kviðverk, ógleði, uppköstum),

bólga í brisi, oft með verulegum kviðverk,

fækkun blóðfrumna, sem getur valdið mari/blæðingum (blóðflagnafæð),

bólga í nefgöngum, blóðnasir,

verkur í hnakka, verkur, brjóstverkur, verkur í hálsi,

hækkun eða lækkun á blóðsykursgildum (ef þú ert með sykursýki skaltu fylgjast vel með

blóðsykursgildunum),

martraðir,

doði eða náladofi í fingrum og tám,

skert sársauka- eða snertiskyn,

breytingar á bragðskyni, munnþurrkur,

minnistap,

suð í eyrum og/eða höfði, skert heyrn,

uppköst,

ropi,

hárlos,

hækkaður hiti,

þvagpróf sem eru jákvæð fyrir hvítum blóðkornum,

þokusýn, sjóntruflanir,

kvenleg karlbrjóstastækkun (brjóstastækkun hjá körlum).

Hugsanlegar aukaverkanir sem hafa komið fram við notkun sumra statína:

kynlífsvandamál,

þunglyndi,

öndunarerfiðleikar, þar með talið þrálátur hósti og/eða mæði eða hiti,

sykursýki: Meiri líkur eru á sykursýki ef þú er með há blóðsykurs- og blóðfitugildi, ert í

yfirþyngd og ert með háan blóðþrýsting. Læknirinn mun fylgjast með þér á meðan þú notar

þetta lyf,

vöðvaverkur, eymsli í vöðvum eða þrálátur vöðvaslappleiki og sérstaklega ef vanlíðan eða hár

hiti fylgir, sem hverfur kannski ekki eftir að töku ATOZET er hætt (tíðni ekki þekkt).

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem

ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint til Lyfjastofnunar,

www.lyfjastofnun.is. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar

um öryggi lyfsins.

5.

Hvernig geyma á ATOZET

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni- eða ílátinu á eftir

EXP/Fyrnist. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið í upprunalegum umbúðum til varnar gegn súrefni.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í

apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda

umhverfið.

6.

Pakkningar og aðrar upplýsingar

ATOZET inniheldur

Virku innihaldsefnin eru ezetimíb og atorvastatín. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 10 mg ezetimíb og

10 mg, 20 mg, 40 mg eða 80 mg atorvastatín (sem atorvastatínkalsíumþríhýdrat).

Önnur innihaldsefni eru kalsíumkarbónat, vatnsfrí kísilkvoða, natríumkroskarmellósi,

hýdroxýprópýlsellulósi, laktósaeinhýdrat, magnesíumsterat, örkristallaður sellulósi, pólýsorbat 80,

póvidón, natríumlárílsúlfat.

Töfluhúðin inniheldur: hýprómellósa, makrógól 8000, títantvíoxíð (E171), talkúm.

Lýsing á útliti ATOZET og pakkningastærðir

Hylkislaga, tvíkúptar, filmuhúðaðar töflur, hvítar eða beinhvítar.

ATOZET 10 mg/10 mg töflur merktar með “257” á annarri hliðinni

ATOZET 10 mg/20 mg töflur merktar með “333” á annarri hliðinni

ATOZET 10 mg/40 mg töflur merktar með “337” á annarri hliðinni

ATOZET 10 mg/80 mg töflur merktar með “357” á annarri hliðinni

Pakkningastærðir:

Pakkningar með 10, 30, 90 og 100 filmuhúðuðum töflum í köfnunarefnishreinsuðum ál/ál (oPA-Al-

PVC holrúmi með álþynnulokun) þynnupakkningum.

Pakkningar með 30 x 1 og 45 x 1 filmuhúðuðum töflum í stakskammta köfnunarefnishreinsuðum ál/ál

(oPA-Al-PVC holrúmi með álþynnulokun) þynnupakkningum.

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Markaðsleyfishafi

Merck Sharp & Dohme Ltd

Hertford Road, Hoddesdon

Hertfordshire EN11 9BU

Bretland

Framleiðandi

Merck Sharp & Dohme B.V.

Waarderweg 39

2031 BN Haarlem,

Holland

Umboð á Íslandi

Vistor hf.

Sími 5357000

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í nóvember 2017.